25.11.2018 11:17

Góðar heimsóknirSælir kæru lesendur. Löngu kominn tími á fréttir frá Litla-Garði en svona er þetta, tíminn hleypur frá manni. Héðan er allt gott að frétta, sumarið leið á ógnarhraða með öllum þeim verkum sem til falla á þessu örstutta sumri okkar hér á Íslandi. Vænting frá Ási með hryssu undan Kolbak frá Litla-Garði

Okkur fæddust 8 folöld þetta árið, 5 hestfolöld og 3 hryssur.
 Eru þau undan Kolbak frá Árgerði, Hreyfil frá Vossabæ, Skaganum frá Skipaskaga og Huga frá Sámsstöðum. 


Heikir er undan Kolbak frá Litla-Garði og Hremmsu frá Litla-Garði 


Miðill frá Litla-Garði undan Skaganum frá Skipaskaga og Mirru frá Litla-Garði
 

Smyrill frá Litla-Garði F. Kolbakur frá Litla-Garði M. SIlfurtá frá Árgerði

Myndir af hinum folöldunum koma inn síðar, en ég hvet ykkur til að vera dugleg að fylgjast með okkur á Facebook síðunni okkar, við reynum að uppfæra þar reglulega. 

 Í ágústbyrjun kom okkar kæra Jóhanna Schulz til okkar með yndislegar mæðgur frá Frakklandi. 
Dvöldu þær hjá okkur í nokkra daga og var margt brallað á þeim tíma. 


Jóhanna okkar að njóta veðurblíðunnar við Goðafoss. 

Við skelltum okkur á Einarstaðamótiðþar sem að Biggi og Gangster komu, sáu og sigruðu!Það var riðið út,


Alla daga
Riðið til fjalla og að sjálfsögðu fylgdi Skundi með :) Brugðið á leik í náttúrufegurðinni.
Á endanum var ekki annað hægt en að skella sér út í :) 


sprellað :)


Riðið yfir ár og daliPrufuð góð hross Mæðgurnar sáttar og glaðar. 

Innilega til hamingju með hryssurnar ykkar, gangi ykkur alltaf sem best! 

Höski Aðalsteins vinur okkar kom með hóp af frábæru fólki frá Austurríki og Þýskalandi í göngur og réttir í haustGekk allt mjög vel þrátt fyrir að kalt hafi verið til fjalla. 

 

Allir sælir og glaðir eftir góða daga í Litla-Garði. 

Kærar þakkir Höski og þið öll hin, frábær hópur! 


 Bestu kveður frá okkur í Litla-Garði 

25.06.2018 11:41

Kynbótastarfið


Sælir kæru lesendur. Biggi heilsar hér með virtum á Tangó frá Litla-Garði og Selina á Kolbak frá Litla-Garði :) Það er sannarlega löngu komin tími á smá blogg frá Litla-Garði en eitthvað hefur tímaleysi verið að hrjá mann eins og gengur og gerist. 
Hér gengur allt sinn vanagang, Biggi og Selína á fullu í tamningunum og nú hefur SIndri Snær bæst í hópinn. 
Sauðburður gekk með ágætum, kindur komnar á fjall og útigangshrossin rétt ófarin á dalina. 

Biggi fór með nokkur hross á kynbótasýningu á Hólum í Hjaltadal og var bara sáttur með sitt. 
 Viktoría frá Árgerði á siglingu.  F: Kapall frá Kommu M: Kveikja frá Árgerði. 
Fyrst ber að nefna Viktoríu frá Árgerði. Hún hlaut í byggingu 7,78 hæfileika 7,84 og í aðaleinkunn 7,82. Hún hlaut 9,5 fyrir skeið.  Það er nokkuð góður árangur hjá þessarri 7 vetra hryssu sem var í folaldseignum í fyrra. Flauta frá Litla-Garði er vaxandi 6 vetra Gangsters og Melódíu dóttir frá Árgerði. Hún hlaut í byggingu 7,98 í hæfileika 8,05 og Aðaleinkunn 8,02 Flauta hlaut 8,5 fyrir skeið og á talsvert inni.
Vaka frá Árgerði er 6.vetra undan Gangster og Von frá Árgerði. Hún bætti sig talsvert og hlaut í sköpulag 8,39 í hæfileika 8,19 og í aðaleinkunn 8,27. Hún hlaut 9,0 fyrir skeið, vilja og geðslag. 


Vaka frá Árgerði

Kolbakur frá Árgerði er fjögurra vetra stóðhestur undan Gangster og Snældu frá Árgerði. 


 
Hann hlaut í sköpulag 8,05 í hæfileika 7,63 og í aðaleinkunn 7,80. 


 
Það er hreint unun að horfa á þennan hest og hans mikla hreyfieðli, það verður ekki leiðinlegt fyrir Bigga að þjálfa þennan í framtíðinni. 


Kolbakur 4.v. 
Búið er að sleppa Kolbak í hólf heima í Litla-Garði og er ekkert mál að bæta inn á hann ef að einhverjir hafa áhuga á að koma með hryssur til hans.  
Tangó 4.v Gangsters og Melodíusonurinn frá Litla-Garði sýndi sig og sannaði á Hólum í Hjaltadal, fór í fyrstu verðlaun og fékk farmiða á LM.


 
Tangó hlaut í sköpulag 8,28 í hæfileika 8,03 Aðaleinkunn 8,13Hann hlaut 8,5 fyrir skeið, vilja og geðslag. 


Verulega skemmtilegur og vaxandi stóðhestur hér á ferð. Tangó er í mjög mikilli framför þessa dagana og verður spennandi að sjá hvað hann gerir á LM í næstu viku. 

Gangster og Hinni  skelltu sér norður yfir heiðar á úrtöku fyrir LM í A flokki gæðinga. 
Þeir voru efstir eftir forkeppni með einkunnina 8,72 og tryggan farmiða inn á Landsmót. 
Spennan magnast og höfum við fulla trú á að þeir félagar eigi eftir að gera garðinn frægann á LM :) 

Gangster kemur heim í fjörðinn eftir Landsmót og mun taka á móti hryssum á Guðrúnarstöðum. Upplýsingar gefur Biggi í s. 896-1249AÐ lokum  langar mig að skella inn myndasyrpu af Gangsterssonunum Tangó og Kolbak. Selina og Biggi skelltu sér saman í kvöldreiðtúr og sat ég fyrir þeim með myndavélina. 
Bestu kveðjur frá Litla-Garði21.03.2018 15:58

Mývatn open


Sælir kæru lesendur.


Selina og Biggi í tamningartúr. 

Tamingar og þjálfun ganga vel í Litla-Garði. Við erum heppin að hafa Selinu Bauer í okkar liði, hún er virkilega fær tamningamaður og ganga tamingar vel hjá henni og Bigga. Selina hefur frá unga aldri verið við tamingar og þjálfun á íslenska hestinum og  stefnir á nám í Háskólanum á Hólum. Mikið er af ungum og bráðefnilegum hrossum inn í hesthúsinu sem eiga framtíðina fyrir sér hvort sem er á keppnisbrautinni eða til frístundar. Meðalaldurinn er 5 vetra. 

 

Við brugðum okkur á Mývatn open um helgina í frábæru veðri.Nokkrir nýliðar úr hesthúsinu voru með í för og höfðu þau mikið gott af,  gott í reynslubankann sem er ekki ýkja stór. Veðrið var dásamlegt, hiti og sól.  Kom það aðeins niðr á brautinni (ísnum) sem var orðin eitt svað að B flokk loknum og var brugðið á það ráð að færa bautina á betri stað þar sem ísinn var betri. Selina fór með Drift í B flokkinn. Var það fyrsta keppni þeirra beggja á Íslandi og stóðu þær sig mjög vel. 


Drift er 6v í vor. Hún er efnishryssa  undan Blæ frá Torfunesi og Kveikju frá Árgerði. Við vorum virkilega ánægð með þessa frumraun hjá þeim stöllum. Fallegt skref og  falleg holling ber vott um góða þjálfun, til hamingju Selina :) Biggi fór með Bergrós í B flokkinn. Bergrós er 10v undan Hóf frá Varmalæk og Sunnu frá Árgerði. Þessi mynd er tekin utan brautar þar sem að reiðfæri var mun betra.


Brautin stóð aðeins í henni og náði hún ekki að nógu góðri spyrnu til að sýna sitt allra besta og náði því ekki inn í úrslit.  Begrós er alþæg, hágeng fjórgangshryssa.

Biggi fór með Flautu 6.v í A flokkinn. Gekk það vonum framar í hennar fyrstu keppni og hafnaði Flauta í 5. sæti. 


Flauta er undan Gangster frá Árgerði og Melodíu frá Árgerði. Virkilega spennandi og flugvökur hryssa.


Ferðalagið sem slíkt var mikil áskorun fyrir stóðhestinn Víking frá Árgerði. Fyrir það fyrsta að eyða deginum í hestakerru með fjórum skvísum og koma síðan á glænýtt svæði þar sem að allt var morandi í flottum og vel lyktandi dömum :) Víkngur verður 6v í vor og er ekki hægt að segja að hann sé hokinn af reynslu en mun þetta vera fyrsta skiptið sem hann kemur á mótstað. 


Víkingur er undan Kiljan frá Steinnesi og Snældu frá Árgerði, mikið efni í fimmgangara með frábært hægt tölt. 

Kepptu þeir félagar í tölti og voru vel sáttir eftir fyrstu keppnina sína saman en þeir höfnuðu í 4ða sæti. 


Þessi hryssa er nú með aðeins meiri reynslu en þessi sem á undan eru talin, en þetta er hún Sigurdís frá Árgerði en hún sigraði 100 m skeið á Mývatn open. Sigurdís er undan Hágangi frá Narfastöðum og Silfurtá frá Árgerði. Mun ég setja sigursprettinn inn á facebook síðu Litla-Garðs á morgun fyrir þá sem hafa áhuga á að kíkja á það. 

læt þetta duga í bili.  Mér langar að þakka lesendum hvað þeir eru duglegir að fylgjast með okkur, það gleður okkur mikið. 

Bestu kveðjur úr sveitinni

Litla-Garðs fjölskyldan


28.12.2017 17:07

Litið yfir árið 2017

Komið þið sæl og blessuð kæru lesendur. 

Árið 2017 kveðjum við með litlum söknuði en reynsluna tökum við sannarlega með okkur. Maður varð áþreifanlega var við að það er ekkert sjálfgefið í þessum heimi.  


Verkefnið sem Biggi fékk í nóvember 2016 hefur fylgt okkur allt árið 2017. Geislameðferð lauk í janúar, meinið var skorið burt í 4 april og tók aðgerðin sex tíma. Biggi fékk tímabundinn stóma í kjölfarið til að fría skurðsvæðið og leyfa því að gróa í friði. 


hressingarganga á Landsspítalanum. 


9 maí tók við viðbótar lyfjameðferð sem lauk 24 oktober. 


Nú fjórða desember fór Biggi aftur undir hnífinn og var stómanu sökkt. 

 Desember mánuð hefur hann notað til að jafna sig.  Nú krossum við fingur og tökum 2018 fagnandi. Við viljum þakka öllum þeim sem veitt hafa okkur stuðning með einum eða öðrum hætti í veikindunum, það hjálpaði okkur mikið að finna fyrir allri þessari velvild á erfiðum tímum. 


Misheppnaður flutningur  Bigga  frá LSH til SAK  eftir aðgerðina í april vakti athygli er Hafþór gat ekki orða bundist og skrifaði um flutninginn á FB.  Rúllaði það af stað bolta sem endaði  á forsíðu vefmiðlanna og í fréttatíma RUV.  Þetta var alvarlegt klúður sem hefði getað farið illa. Þetta sýndi okkur svart á hvítu hversu "sprungið" heilbrigðiskerfið er því það vantar ekki góðan vilja og dugnað hjá starfsfólki Landsspítalans.mynd tekin á leið í aðgerð fjórða april. 


 En þegar upp er staðið erum við afar þakklát fyrir okkar hæfileikaríku lækna. Að öðrum ólöstuðum má þar nefna skurðlæknirinn Jórunni Atladóttir, krabbmeinslæknirinn Hlyn Grímson er starfa á LSH. Guðjón Kristjánsson meltingafæralæknir, Haraldur Hauksson og starfsfólk SAK fá þakklætiskveðjur. En nú stykklum við á stóru yfir helstu viðburði Litla-Garðsfjölskyldunnar árið 2017

 Þrátt fyrir veikindaár hafa hjólin snúist, þótt þau hafi kannski ekki náð fullum snúning.

Magnús Ingi Másson var hjá okkur fram í maí  við tamningar og önnur tilfallandi störf.  Hafði hann tvær stúlkur sér til aðstoðar framan að vetri.

 Sauðburður gekk með ágætum sama má um segja um heyskap. Það voru mikil og góð hey enda frábært spretta í sumar.

4 júní var hátíðardagur en þá fermdist Sindri Snær (örverpið okkar) í Grundarkirkju. 


Þökkum við öllum þeim sem glöddust með okkur á þessum fallega sumardegi.

 

Mikið var riðið út, en yfir sumarmánuðina voru hér tvær stúlkur, þær Lena og Tara. Sindri Snær var einnig á  fullu í tamningum og öðru tilfallandi.


Í septembermánuði varð ráðist í hringvallagerð með góðra vina hjálp. 250 m hringur með skeiðbraut var hent upp á engum tíma, en yfirlag og fínvinna verður unninn á næsta ári. Takk þið öll sem gerðuð þetta að veruleika.


Sýninga og keppnishald lá niðri þetta árið að öðru leyti en því að Biggi skellti sér með Sigurdís frá Árgerði á íþróttamót Hrings síðla sumars og sigraði þar 100 m og 150 m skeið. Má þvi segja að keppnisárið hafi bæði byrjað og endað vel.


Sigurdís frá Árgerði.


Átta folöld fæddust okkur í ár, sex hestfolöld og tvær hryssur.  Er það annað árið í röð sem hestfolöld eru í miklum meiri hluta.


Þetta fallega hestfolald fæddist í sumar og er undan Gangster frá Árgerði og Melodíu frá Árgerði. Hlaut hann nafnið Viktor frá Litla-Garði


Lítið var um ferðalög í ár fyrir utan reglulegar suðurferðir. Við gáfum okkur þó tíma til að skreppa með fjölskyldunni í útilegu í Ásbyrgi, fórum í veiðiferðir og fl. 


Í Ásbyrgi


Nanna og Viktoría sælar með hvor aðra.


Sindri og Viktoría að veiða.


Eitthvað þótti sumum ekki gáfulegur skóbúnaðurinn hjá frúnni, en eins og hún hefur alltaf sagt, þá er bókstaflega hægt að gera allt á klossum. 

Einnig létum við verða af því að upplifa Fiskidaginn mikla og hina stórkostlegu fiskidagstónleika.


Þvílík hátíð.


Gangster og Eldborg hafa verið hjá Hinna Braga og Huldu á Árbakka allt árið. Gangster kom fram á úrtökumóti Spretts í sinni fyrstu fimmgangskeppni. Í forkeppni hlaut hann 7,23 og í úrslitum 7,43 og hlaut annað sætið í geysisterkri keppni. Takk Hinni og Hulda!


Hinni og Gangster í sveiflu.


Í ár vorum við með þrjár ferðir fyrir ferðamenn, eina í april og tvær í sept/okt. Það var virkilega gaman og stefnum við í að fjölga ferðum árið 2018. Við erum í góðu samstarfi  við vini okkar í Austurríki þau Michi og Höska Aðalsteins. Þetta er ágætis aukabúgrein með hrossunum og styrkir tengslanetið. H

Höski og Biggi fram á afrétt með einn hópinn.


Í byrjun desember fjölgaði heldur betur í Djúpadal er Hafþór Magni og Heiður Gefn fluttu með börnin sín Viktoríu Röfn og Magna Rafn  í Árgerði.  Eru nú komir tveir Magnar í Árgerði sem er vel við hæfi. Sá gamli hefði nú verið ánægður með það :) 


Mynd Daníel Starrason. Brúðkaup Hafþórs og Heiðar 2016


Dísa unir sér vel og kann vel við fjölgunina á heimilinu.


 Nanna Lind býr á Akureyri og er í Hákólanum. Henni dugar ekki ein háskólagráða, heldur stefnir hún á að útskrifast með tvær í viðskiptafræði og lögreglufræði. Það er því nóg að gera hjá henni þessa dagana. 


Nanna Lind í góðum gír.


Sindri Snær æfir fótboltann af kappi. 


Hann æfir með KA á Akureyri og er í þriðja flokk.


Herdís hefur nært sálina reglulega með Hymnodiu söng. Kórinn er skapandi og skemmtilegur  og fer gjarnan ótroðnar slóðir þó að sjálfsögðu takist hann einnig á við hefðbundinn verkefni.


Saumaklúbburinn ákvað að bregða sér af bæ í mars og skellti sér á Wintney Houston show í Hörpunni og hafði mikið gaman að.   

 

22 desember var hálfrar aldar afmæli hjá Bigga og bárust honum þessi flottu málverk.


Dísa, Hafþór, Heiður og börn, Nanna og Sindri færðu honum þessa glæsimynd af Gangster eftir Helmu Art.


Þessa æðislegu kolamynd af Mirru frá Litla-Garði færðu síðan Bogga,  Ásdís og fjölskylda honum.


Kæru lesendur!

 Gleðilegt nýtt ár með kærri þökk fyrir það gamla. Með ósk um góða heilsu og gæfu á komandi ári.

Bestu kveðjur

Litla-Garðsfjölskyldan 

  • 1
Flettingar í dag: 230
Gestir í dag: 47
Flettingar í gær: 192
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 2009902
Samtals gestir: 239445
Tölur uppfærðar: 18.12.2018 21:06:00