Færslur: 2011 Janúar

07.01.2011 13:11

Gleðilegt nýtt ár

Jæja þá mun fréttaflutningur hefjast á ný hér úr Djúpadalnum og er nýr ritari tekinn til starfa í fjarveru Nönnu Lindar sem er upptekin við að mennta sig, en nýr ritari er Ásdís Helga.
 

Nanna Lind og Sindri Snær á gamlárskvöldi í góðu fjöri.

Gleðilegt nýtt ár elsku lesendur og kærar þakkir fyrir það liðna. Undanfarið ár var nú æði misjafnt í okkar bransa sökum heilsubrests ferfætlinganna okkar. Lítið var um mót og sýningar sem annars ræður ríkjum yfir sumartímann. En nú er nýtt ár tekið við og sama stemming er uppi á teningnum og á sama tíma í fyrra, Landsmót framundan og tvöfaldur hugur er í fólki.

Það hefur nú þónokkuð á daga okkar driftið hér í Djúpadalnum síðan síðasta frétt kom inn. Svo það sé nú ekki endilega talið upp í tímaröð þá átti Gerða í Teigi sjötugsafmæli nú milli jóla og nýárs og hélt veislu. Óskum við henni hér aftur innilega til hamingju með það.
Hér má sjá mynd frá þeirri veislu, Biggi ásamt foreldrum og systkinum sínum ásamt þeirra mökum, stór og falleg fjölskylda:



Svo gekk jólahátíðin í garð hér á bæ sem og öðrum og var hún hátíðleg. Helgi bróðir Herdísar kom um miðjan desember til Íslands frá Ástralíu ásamt dóttur sinni Lindu Báru til að eyða hátíðunum með íslensku fjölskyldu sinni og ætla þau að dvelja hér þar til um miðjan janúar.


 Systkinin Herdís, Helgi og Bogga saman á ný

Áramótin gengu hjá áfallalaust hjá en ávallt er hætta á slysum á hrossum sökum flugelda.
Mikið var borðað af góðum mat og var rakettum svo skotið upp á Akureyri á miðnætti eins og venjan er. Svo var 2011 gengið í garð og nýjir tímar hefjast.


Ekki væsir um folaldshryssurnar og tryppin í útiganginum á gamlársdag, þegar nóg er að éta og nálægð við byggð ekki mikil er lítil hætta á slysum.

Tamningarstöðin sem hafði verið í dvala í Litla-Garði að mestu frá því að grös fóru að gulna tók kipp strax 2.janúar og þann þriðja var allt komið á fullt.
Í húsinu í vetur verða að starfa ásamt Stefáni Birgi heimalingurinn hún 
Ásdís Helga Sigursteinsdóttir en hún hefur lokið Hólaskóla og einnig Anna Sonja Ágústsdóttir frá Kálfagerði sem verður hér hjá okkur í verknámi frá Hólum í vetur. Kennari frá Hólaskóla, Þórir á Lækjarmóti kom svo að taka út verknámstryppin hennar Önnu Sonju þann 4.janúar og verður hún með fjórar hryssur og einn gelding. Verða þau kynnt betur síðar.

Húsið er að fyllast jafnt og þétt af gæðingum og enn er að berast hross. Það verður góð og mikil flóra af hrossum hjá okkur í vetur á öllum aldri. Langmest er af kynbótahrossum og einu hrossin sem eru hjá okkur nú í frumtamningu eru þau sem Anna hefur undir sínum höndum í verknáminu. Verða teknar myndir jafnt og þétt af þeim sem bera af hverju sinni og verður því þá smellt hér inn.

Vetur konungur fer heldur óblíðum höndum um okkur þessa dagana og mikil ofankoma er ásamt miklum vindi og frosti. En það er ávallt eitthvað að gera, innivinnan er nú auðvitað innlegg sem verður svo klár til úttektar þegar á þarf að halda seinna í vetur. Eins þurfa þau sem prúð eru að líta vel út og sveiflast hendurnar á dömunum hratt við að skipta og pússa fax.

Þar til næst, kveðjur úr Djúpadalnum




  • 1
Flettingar í dag: 79
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 556
Gestir í gær: 44
Samtals flettingar: 1299712
Samtals gestir: 82126
Tölur uppfærðar: 7.12.2024 03:26:51