Færslur: 2017 Desember

28.12.2017 17:07

Litið yfir árið 2017

Komið þið sæl og blessuð kæru lesendur. 

Árið 2017 kveðjum við með litlum söknuði en reynsluna tökum við sannarlega með okkur. Maður varð áþreifanlega var við að það er ekkert sjálfgefið í þessum heimi.  


Verkefnið sem Biggi fékk í nóvember 2016 hefur fylgt okkur allt árið 2017. Geislameðferð lauk í janúar, meinið var skorið burt í 4 april og tók aðgerðin sex tíma. Biggi fékk tímabundinn stóma í kjölfarið til að fría skurðsvæðið og leyfa því að gróa í friði. 


hressingarganga á Landsspítalanum. 


9 maí tók við viðbótar lyfjameðferð sem lauk 24 oktober. 


Nú fjórða desember fór Biggi aftur undir hnífinn og var stómanu sökkt. 

 Desember mánuð hefur hann notað til að jafna sig.  Nú krossum við fingur og tökum 2018 fagnandi. Við viljum þakka öllum þeim sem veitt hafa okkur stuðning með einum eða öðrum hætti í veikindunum, það hjálpaði okkur mikið að finna fyrir allri þessari velvild á erfiðum tímum. 


Misheppnaður flutningur  Bigga  frá LSH til SAK  eftir aðgerðina í april vakti athygli er Hafþór gat ekki orða bundist og skrifaði um flutninginn á FB.  Rúllaði það af stað bolta sem endaði  á forsíðu vefmiðlanna og í fréttatíma RUV.  Þetta var alvarlegt klúður sem hefði getað farið illa. Þetta sýndi okkur svart á hvítu hversu "sprungið" heilbrigðiskerfið er því það vantar ekki góðan vilja og dugnað hjá starfsfólki Landsspítalans.mynd tekin á leið í aðgerð fjórða april. 


 En þegar upp er staðið erum við afar þakklát fyrir okkar hæfileikaríku lækna. Að öðrum ólöstuðum má þar nefna skurðlæknirinn Jórunni Atladóttir, krabbmeinslæknirinn Hlyn Grímson er starfa á LSH. Guðjón Kristjánsson meltingafæralæknir, Haraldur Hauksson og starfsfólk SAK fá þakklætiskveðjur. En nú stykklum við á stóru yfir helstu viðburði Litla-Garðsfjölskyldunnar árið 2017

 Þrátt fyrir veikindaár hafa hjólin snúist, þótt þau hafi kannski ekki náð fullum snúning.

Magnús Ingi Másson var hjá okkur fram í maí  við tamningar og önnur tilfallandi störf.  Hafði hann tvær stúlkur sér til aðstoðar framan að vetri.

 Sauðburður gekk með ágætum sama má um segja um heyskap. Það voru mikil og góð hey enda frábært spretta í sumar.

4 júní var hátíðardagur en þá fermdist Sindri Snær (örverpið okkar) í Grundarkirkju. 


Þökkum við öllum þeim sem glöddust með okkur á þessum fallega sumardegi.

 

Mikið var riðið út, en yfir sumarmánuðina voru hér tvær stúlkur, þær Lena og Tara. Sindri Snær var einnig á  fullu í tamningum og öðru tilfallandi.


Í septembermánuði varð ráðist í hringvallagerð með góðra vina hjálp. 250 m hringur með skeiðbraut var hent upp á engum tíma, en yfirlag og fínvinna verður unninn á næsta ári. Takk þið öll sem gerðuð þetta að veruleika.


Sýninga og keppnishald lá niðri þetta árið að öðru leyti en því að Biggi skellti sér með Sigurdís frá Árgerði á íþróttamót Hrings síðla sumars og sigraði þar 100 m og 150 m skeið. Má þvi segja að keppnisárið hafi bæði byrjað og endað vel.


Sigurdís frá Árgerði.


Átta folöld fæddust okkur í ár, sex hestfolöld og tvær hryssur.  Er það annað árið í röð sem hestfolöld eru í miklum meiri hluta.


Þetta fallega hestfolald fæddist í sumar og er undan Gangster frá Árgerði og Melodíu frá Árgerði. Hlaut hann nafnið Viktor frá Litla-Garði


Lítið var um ferðalög í ár fyrir utan reglulegar suðurferðir. Við gáfum okkur þó tíma til að skreppa með fjölskyldunni í útilegu í Ásbyrgi, fórum í veiðiferðir og fl. 


Í Ásbyrgi


Nanna og Viktoría sælar með hvor aðra.


Sindri og Viktoría að veiða.


Eitthvað þótti sumum ekki gáfulegur skóbúnaðurinn hjá frúnni, en eins og hún hefur alltaf sagt, þá er bókstaflega hægt að gera allt á klossum. 

Einnig létum við verða af því að upplifa Fiskidaginn mikla og hina stórkostlegu fiskidagstónleika.


Þvílík hátíð.


Gangster og Eldborg hafa verið hjá Hinna Braga og Huldu á Árbakka allt árið. Gangster kom fram á úrtökumóti Spretts í sinni fyrstu fimmgangskeppni. Í forkeppni hlaut hann 7,23 og í úrslitum 7,43 og hlaut annað sætið í geysisterkri keppni. Takk Hinni og Hulda!


Hinni og Gangster í sveiflu.


Í ár vorum við með þrjár ferðir fyrir ferðamenn, eina í april og tvær í sept/okt. Það var virkilega gaman og stefnum við í að fjölga ferðum árið 2018. Við erum í góðu samstarfi  við vini okkar í Austurríki þau Michi og Höska Aðalsteins. Þetta er ágætis aukabúgrein með hrossunum og styrkir tengslanetið. H

Höski og Biggi fram á afrétt með einn hópinn.


Í byrjun desember fjölgaði heldur betur í Djúpadal er Hafþór Magni og Heiður Gefn fluttu með börnin sín Viktoríu Röfn og Magna Rafn  í Árgerði.  Eru nú komir tveir Magnar í Árgerði sem er vel við hæfi. Sá gamli hefði nú verið ánægður með það :) 


Mynd Daníel Starrason. Brúðkaup Hafþórs og Heiðar 2016


Dísa unir sér vel og kann vel við fjölgunina á heimilinu.


 Nanna Lind býr á Akureyri og er í Hákólanum. Henni dugar ekki ein háskólagráða, heldur stefnir hún á að útskrifast með tvær í viðskiptafræði og lögreglufræði. Það er því nóg að gera hjá henni þessa dagana. 


Nanna Lind í góðum gír.


Sindri Snær æfir fótboltann af kappi. 


Hann æfir með KA á Akureyri og er í þriðja flokk.


Herdís hefur nært sálina reglulega með Hymnodiu söng. Kórinn er skapandi og skemmtilegur  og fer gjarnan ótroðnar slóðir þó að sjálfsögðu takist hann einnig á við hefðbundinn verkefni.


Saumaklúbburinn ákvað að bregða sér af bæ í mars og skellti sér á Wintney Houston show í Hörpunni og hafði mikið gaman að.   

 

22 desember var hálfrar aldar afmæli hjá Bigga og bárust honum þessi flottu málverk.


Dísa, Hafþór, Heiður og börn, Nanna og Sindri færðu honum þessa glæsimynd af Gangster eftir Helmu Art.


Þessa æðislegu kolamynd af Mirru frá Litla-Garði færðu síðan Bogga,  Ásdís og fjölskylda honum.


Kæru lesendur!

 Gleðilegt nýtt ár með kærri þökk fyrir það gamla. Með ósk um góða heilsu og gæfu á komandi ári.

Bestu kveðjur

Litla-Garðsfjölskyldan 

  • 1
Flettingar í dag: 254
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 823
Gestir í gær: 84
Samtals flettingar: 918987
Samtals gestir: 65983
Tölur uppfærðar: 17.6.2024 08:09:27