Færslur: 2012 Desember

30.12.2012 13:13

Annáll 2012

Sindri Snær og Tónn frá Litla-Garði


Annáll 2012

Þá líður senn að lokum þessa ágæta árs 2012. Þá er alltaf skemmtilegt að taka saman það sem gerst hefur í lítinn (eða stóran ;)) pistil. Árið hefur verið viðburðaríkt og gott í heild sinni þó svo að lítið um stórfréttir hafi verið. Tamningar, þjálfun og almenn bústörf eru vitanlega hlutur sem á við allt árið um kring en keppnir, kynbótasýningar og aðrar sýningar tengdar hestamennskunni voru margar á árinu. Landsmót var haldið með glæsibrag í Reykjavík ásamt fleiri flottum mótum hérna á Norðurlandi. 

Strax frá áramótum var alveg smekkfullt á tamningarstöðinni og ásamt Bigga var Ásdís Helga og svo Hulda Lilý einnig sem verknemi frá Hólaskóla. Mikið var um kynbótahross og var veturinn skemmtilegur. Þónokkuð var um innanhúsmót og tókum við þátt þar með ágætis árangri. Eins voru hinar árlegu ískeppnir og völdum við Svínavatn til að fara á. Tristan og Biggi enduðu þar í þriðja sæti í A-flokki annað árið í röð :) 

Janúar - Mars

Fyrstu mánuðir ársins voru ljómandi góðir, veðrið býsna gott og tamningar gengu vel. Hulda Lilý var í frumtamningarprógrami með 5 álitleg tryppi og tók prófið sitt í mars og stóðst það með prýði. 
Gangster í stuði á Melgerðismelum í mars.

Þennan vetur vorum við með nokkrar stíur á leigu á Melgerðismelum frá mars og fram í maí en gott aðgengi er að reiðhöll, keppnisvöllum og kynbótabraut þar, einnig er undirlag með því besta sem fyrirfinnst. 


Folaldshryssurnar í febrúar 2012


Stórsýningin Fákar og Fjör fór fram í Mars og fórum við þangað með þónokkur hross. 

Biggi og Evelyn frá Litla-Garði og BIggi og Blakkur frá Árgerði í skeiðinu,

Biggi og Gangster
Ásdís og Kiljan frá Árgerði

Ásdís og Perla frá Syðra-Brekkukoti og Vignir Sig og Auður frá Ytri-Hofdölum

Biggi og Gletting frá Árgerði

Árið 2012 var einnig stórt ár í lífi húsfreyjunnar Herdísar en tengdist það ekki hestunum, nema kannski myndin hennar sem fylgdi auglýsingunni. Auðvitað fyrirfinnst ekki betri fyrirsæta en Gangster, nema kannski Herdís og Gangster saman!!


Herdís og Gangster, myndin sem fylgdi auglýsingu tengdri tónleikunum í blöðunum


Í Mars var þessi stóri áfangi í lífi Herdísar þar sem hún kláraði framhaldsnám sitt í klassískum söng og hélt glæsilega útskriftartónleika fyrir fullum sal af fólki. 


Hér syngur Herdís dúett með Þorkeli Pálssyni lagið Sunrise Sunset


Hamingjusöm að loknum tónleikum hlaðin gjöfum.

Apríl - Júní

Svo brast vorið á eins og venjulega :) Folöldin fóru að týnast í heiminn í byrjun maí og er það alltaf skemmtilegt. 


Þessi vel sperrti foli kom í heiminn mánaðarmótin maí/júní og er undan gæðingnum Snældu frá Árgerði (ae 8.30) og Kiljan frá Steinnesi. Hann fær nú að halda kúlunum eitthvað lengur ;)


Þetta er ein sú flottasta sem kom í sumar, hryssa undan Blæ frá Torfunesi og Kveikju frá Árgerði (ae 8.03)


Vænn árgangur kom undan honum Gangster okkar, þessi gullfallega hryssa er undan Von frá Árgerði (ae 8.39) og Gangster.


Þessi gullfallegi foli er undan Svölu frá Árgerði og Gangster :)


Og líka þessi, undan Nös (ae 8.16) og Gangster


Rauða til hægri er undan Tíbrá frá Ási og Kiljan frá Árgerði og bleikálótta til vinstri undan Blæ og Kveikju (sjá mynd hér að ofan)

Í lok maí var svo lokapróf hjá Huldu Lilý í þjálfunarhestunum og kláraði hún þar með þann áfanga og útskrifaðist sem Tamningarmaður og Þjálfari í lok maí.
Í byrjun Júní byrjaði svo ung dama hjá okkur til að vera sumarið, Eydís Sigurgeirsdóttir frá Hríshóli.

Kynbótasýningar:

Sýnd voru þónokkur hross á vorsýningum bæði af Bigga og Ásdísi, það sem helst var voru:

Gletting frá Árgerði ae 8.16, hæfileikar 8.31. 9.0 fyrir tölt og vilja/geð


Gletting á hægu stökki



Evelyn frá Litla-Garði ae 8.03 (klárhryssa)



Perla frá Syðra-Brekkukoti ae 8.04 (9.0 fyrir tölt, brokk og vilja/geð) klárhryssa



Kolbrá frá Kálfagerði 7.92

Sigurdís frá Árgerði ae 7.91 

Syrpa frá Hnjúkahlíð ae 7.84 (9.0 fyrir vilja/geð og hægt tölt)

Prýði frá Hæli ae 7.89 (klárhryssa) 



Assa Ugludóttir frá Akureyri ae 7.76

Skerpla frá Brekku ae 7.74

Negla frá Hellulandi ae. 7.65


Svo var úrtaka fyrir Landsmót næst á dagskrá í byrjun júní og smelltum við okkur þangað með nokkur :) 



Gangster frá Árgerði þreytti frumraun sína í gæðingakeppni og hlaut efstu einkunn inn á Landsmót fyrir Funa 8.32


Perla frá Syðra-Brekkukoti var glóðvolg eftir að rúlla í 1.v á vorsýningu og stóð efst í B-flokknum eftir forkeppni með 8.41 og sigraði svo úrslitin með 8.63 en þetta var gæðingakeppni Léttis líka. 



A-flokkurinn gekk ekki alveg sem skyldi hjá okkur í þetta skiptið en það er ekki alltaf jólin :) 

Kiljan frá Árgerði náði svo þriðja sætinu í sinni fyrstu keppni í gæðingaskeiði í lok móts. 

Um miðjan júní var svo Gæðingakeppni Funa haldin á Melgerðismelum. Við mættum þangað með fulla kerru af gæðingum og uppskárum vel. Biggi og Gangster sigruðu B-flokkinn glæsilega með 8.69 í lokaeinkunn en í öðru sæti var svo Nanna Lind á Vísi með 8.42





Í A-flokknum börðust bræðurnir Tristan og Kiljan á toppnum, Tristan varð efstur með 8.57 og Kiljan í öðru sæti.






Í barnaflokki kepptu Sindri Snær og Tónn frá Litla-Garði og voru glæsilegir að vanda og nældu sér í 3ja sætið í úrslitunum.




Í lok júní og byrjun júlí var svo Landsmótið í Víðidal haldið og skunduðum við suður og vorum með sitthvort hrossið í B-flokknum, Biggi með Gangster 6.v og ég með Perlu frá Syðra-Brekkukoti. Það gekk alveg ágætlega hjá okkur, Gangsterinn hlaut 8.35 í forkeppninni og Perla 8.44 en 8.50 þurfti til að komast upp í milliriðil, gríðarsterkur B-flokkur. 


Mynd: Kristín Erla Benediktsdóttir


Mynd: Magnús Ingi Magnússon

Júlí - Ágúst

Í lok júlí kom Hafþór Magni með yndislegu fjölskylduna sína norður í sumarfrí. Viktoría Röfn ömmu og afastelpa kann svo sannarlega að bræða alla í kringum sig. Það var aðeins breytt út af vananum og farið í míníútilegu á Melgerðismelum, riðið þangað með rekstur og farið í reiðtúr þar öll saman, pallhýsinu svo lagt á besta stað og svo grillað, kveikt á varðeld (svona til varnar öllum rándýrunum haha) og spilað og trallað.


Reksturinn á leiðinni niðureftir


Biggi lengst til vinstri, svo Ásdís, Hafþór, Heiður og loks Sindri




Feðginin, Hafþór og Viktoría


Og svo var auðvitað farið aftur heim með reksturinn :)


Júní og Júlí voru alveg með eindæmum góðir mánuðir hvað varðar veðrið. Sól og blíða var nánast upp á hvern einasta dag og var hreint út sagt mjög gaman að vera til. Heyskapur gekk þá væntanlega eins og í lygasögu en hins vegar vantaði helst upp á svolitla vætu, upp á meiri gróður og sprettu. 

Eftir Landsmót tóku "venjulegu" mótin við :) Einarsstaðir, Fákaflug, Stórmót Hestamanna o.fl. Ætla ekki að kryfja hvert mót fyrir sig en kem með myndasyrpu frá þessum mótum.


Nanna Lind og Vísir áttu magnað mót á Einarsstöðum. Stóðu upp sem flottir sigurvegarar í ungmennsflokki með 8.57 í lokaeinkunn. 


Gangsterinn tók sér örlítið leyfi frá skyldustörfum sem stóðhestur og mætti sprækur til leiks á Einarsstöðum og Stórmóti, var í A-úrslitum á Einarsstöðum í 3ja sæti með 8.53 og  í A-úrslitum á stórmóti einnig.


Sindri Snær og Tónn frá Litla-Garði Tristanssonur tóku þátt í barnaflokki. Þeir voru náttúrulega langflottastir og komust í úrslit á Einarsstöðum, voru áttundu inn í úrslitin og riðu sig upp í fjórða sæti eins og ekkert væri sjálfsagðara :) 


9.0 töltarinn Gletting frá Árgerði fékk að spreyta sig í töltkeppnum en við höfum alltaf haft trú á að hún gæti gert verulega góða hluti þar. Þetta var einnig hennar síðasta tækifæri þar sem hún átti stefnumót með Kappa frá Kommu í júní. 
Þau kepptu semsagt í tölti á þessum tveimur mótum, Einarsstaðamóti og Stórmót Hestamanna á Melgerðismelum. Stóðu þau efst á Einarsstöðum eftir sætaröðun dómarara á móti Baldvin Ara á Senjor með einkunnina 7.28 og stóðu þau einnig langefst á Stórmót með 7.33


Glæsihryssa

Um miðjan ágúst átti svo Bogga (systir Herdísar, mamma Ásdísar og dóttir Þórdísar) stórafmæli, nánar tiltekið 14.ágúst og varð hún fimmtug. Hélt hún veislu í sumarhúsi á Illugastöðum og var dagurinn dásamlegur í alla staði.


Bogga með eina af afmælisgjöfunum :)

Síðasta mót ársins er ævinlega Bæjarkeppnin en það er mót í firmakeppnisstíl sem yfirleitt er mikill skemmtibragur á, stutt og laggott og góð þáttaka var í ár. Okkar liði gekk nú alveg bærilega og komum við heim með 3 gull af 4 mögulegum. Eydís fékk Vísi lánaðan til að keppa í unglingaflokki og sigraði þar eftir harða keppni við frænda sinn Örn í Fellshlíð. Ásdís dustaði rykið af Hvinsa sínum frá Litla-Garði sem hafði verið í hálfgerðu keppnisorlofi þetta sumarið og var hann svo glaður með það að hann nældi í gullið í kvennaflokki og Biggi og Gletting sigruðu svo karlaflokkinn. Sindri Snær og Tónn kepptu í Barnaflokki og stóðu sig vel að vanda.


Ásdís og Hvinur


Eydís og Vísir


Biggi og Gletting

Í lok ágúst var svo ákveðið að smella sér til Spánar, fjölskyldan í Litla-Garði og Bogga með. Var það vika í hita og paradís. 


Haha sumir voru aðeins lúnir í Leifsstöð :)


Gerist þetta eitthvað betra???


Úbs, Biggi fer ekki aftur þangað ;)


Herdís prófaði einn útlenskan í kúrekaþorpi og styður hér með innflutning á öðrum hestakynjum ;) nei djók


Feðgin


September - Desember 

Þar með voru mótum þessa árs lokið og haustið tók við í allri sinni dýrð. Ásdís ákvað að leggja land undir fót og smellti sér til Kanada að temja og þjálfa þar í sept-des. 


Fékk að prófa einn stóran veðhlaupahest sem heitir I am Awesome! Hefur sá unnið yfir 25. millur í verðlaunafé :) 

Í byrjun september gerði brjálað veður á Íslandi og allt snjóaði í kaf en hins vegar sluppum við býsna vel hérna í Djúpadalnum miðað við marga aðra staði en vindofsinn sleit upp fyrir okkur a.m.k eitt tré með rótum. En allar okkar kindum skiluðu sér heim sem betur fer. 


Okkar fólk gleymdi auðvitað myndavélinni en ég fékk þessa sætu mynd lánaða hjá Söru Arnbro, það hafa klárlega allir gaman af kindaréttunum í Ysta-Gerði.

Í byrjun október voru svo stóðréttir og komu Lasse Grönberg og faðir hans til Íslands frá Danmörku til að taka þátt í því með okkur. Höfðu þeir verulega gaman af því að fara hérna fram á dal og sækja stóðið og fékk ég einmitt þessa mynd  lánaða af facebook síðunni hans Lasse:



Restin á haustinu var ótrúlega viðburðasnautt, veðrið er reyndar búið að vera ansi leiðinlegt á Íslandi yfirhöfuð. Tryppin á fjórða vetur komu inn í nóvember og var aðeins byrjað að fikta í þeim. Er þar lofandi árgangur á ferð. 

Svo var bara næst á dagskrá jólahátíðin :)


Dísa og Magni Árgerði glæsileg á aðfangadagskvöld.



23.12.2012 18:03

Jól

  • 1
Flettingar í dag: 1031
Gestir í dag: 143
Flettingar í gær: 1286
Gestir í gær: 168
Samtals flettingar: 787810
Samtals gestir: 52331
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 05:07:35