Færslur: 2016 Janúar

01.01.2016 21:17

Annáll 2015


Sælir kæru lesendur!

 Um leið og við óskum ykkur gleðilegs nýs ár með kærri þökk fyrir það liðna, ætlum við að líta um öxl og fara yfir liðið ár.


Árið 2015 var okkur Litla-Garðs fjölskyldunni gott. Við vorum heppin með starfsfólk, en hjá okkur voru í byrjun árs þær Jóhanna Schultz og síðar kom Lena Höller.

Lena fór  til sinna heimahaga, Austurríkis í vor og var þá búin að heillast af einni Gangstersdóttirinni sem var í eigu Siggu og Kalla í Hólum að hún tók hana með sér út.


Lena og Gangstersdóttirin Orka frá Hólum.  Hún hlaut 7,79 í byggingu, upp undir fyrstu verðlaun fyrir hæfileika eða 7,98 a.e 7,91  

Jóhanna "sem er menntaður reiðkennari frá Hólum" hélt áfram hjá okkur í sumar og við bættist Jakob kærastinn hennar sem var núbúin að ljúka sínu fyrsta ári á Hólum. Hann er einnig járningarmeistari og létti það einnig mikið undir. Jóhanna var búin að tryggja sér eina Gangstersdóttir Eldbrá frá Litla-Garði og Jakob nældi sér í Tind frá Árgerði, en þessi hross fluttu þau með sér til Hollands með haustinu. 


Eldbrá frá Litla-Garði og Jóhanna 


Lucienne Niederquell kom einnig í sumar og var hjá okkur smá tíma, og tók hún einnig með sér heim hana Emilíönu frá Litla-Garði og ósk um við eigendum innilega til hamingju og velfarnaðar með gæðingana á nýjum slóðum.

Skilaði þetta úrvals starfsfólk okkur góðu verki og er ekki amarlegt að halda áfram með þeirra góða innlegg í hrossunum.

Biggi sýndi 7 hryssur í fullnaðardóm þetta árið og fóru 5 þeirra í fyrstu verðlaun.

Það var Gangstersdóttirin Eldbrá frá Litla-Garði (sjá mynd að ofan) í eigu Jóhönnu Schultz  fór beint í fyrstu verðlaun í fyrsta kasti. Hæfileikar 8,28 sköpulag 7,78 A,e 8,08



Augnakonfektið Aldís frá Krossum hlaut í sköpulag 7,90, í hæfileika 8,08   Ae 8,01


Dögun frá Akureyri í eigu Erlings Guðmundssonar Akureyri smellti sér einnig yfir í fyrstu verðlaun. Hún hlaut í sköpulag 7,88 , í hæfileika, 8,41, Ae. 8,20

Dögun frá Akureyri


Síðan var það Kvika frá Árgerði í eigu Dísu í Árgerði. Kvika hlaut 8,06 fyrir byggingu 8,08 fyrir hæfileika ae 8,07. Kvika er undan Blæ frá Hesti og Nös frá Árgerði.


Kvika frá Árgerði


Síðust en ekki síst er það Kiljansdóttirin okkar hún Eldborg frá Litla-Garði.


Hún er undan Kiljan frá Árgerði og Væntingu frá Ási 1. Þessi fimm vetra skutla fékk í byggingu 8,06, hæfileika 8,44 A.e. 8,29 þar af 9 fyrir samræmi, vilja og geðslag, fegurð í reið, og 9,5 fyrir hægt tölt :) Til gamans má geta að Eldborg er áttunda hæðst dæmda fimm vetra hryssan árið 2015. 



Fjórðungsmót Austurlands var haldið um mánaðarmótin júní/júli á Stekkhólma. Fórum við með allmörg hross þangað og gekk það nokkuð vel en vallaraðstæður voru yngri kynbótahrossunum okkar ekki hagstæðar þar sem að völlurinn var of þungur, og náðu þau því ekki öll að skila fullum afköstum. Eldri hrossin komu betur út og hækkaði til að mynda Dögun frá Akureyri sig vel og fór í 8,41 fyrir hæfileika. 



Sindri Snær og Tónn skiluðu sínu vel, voru efstir eftir forkeppni í barnaflokki eftir frábæra sýningu, en höfnuðu í öðru sæti í úrslitum eftir hörku keppni. Áttum við góða daga á Héraði og þökkum Freyfaxamönnum fyrir glæsilegt mót. 

Allmörg hross skiptu um eigendur á árinu og ætlum við ekki að tíunda það hér frekar en að stóðhesturinn Kiljan frá Árgerði var seldur í sumar.



 Kiljan fer til Austurríkis næstkomandi haust og ætlum við Litla-Garðsbændur að vera dugleg að nota hann næsta sumar því hann hefur verið að skila okkur virkilega spennandi tryppum. Þekktust afkvæma hans er líklegast hin rísandi stjarna Eldborg frá Litla-Garði sem að er nú þegar orðin mörgum kunn einungis 5 vetra gömul.


Síðast liðið sumar fæddust 10 folöld. Þau eru undan Loka frá Selfossi, Gangster frá Árgerði, Kiljan frá Árgerði, Sæ frá Bakkakoti og Hróð frá Refstað.

 

Hér er ein mesta vonarstjarna húsbóndans Glitnir frá Litla-Garði undan Gangster og Mirru frá Litla-Garði. 


Við ákáðum að uppfæra okkur aðeins þetta árið og fórum með systurnar Mirru og Eldborg í fósturvísaflutninga í Dýrfinnastaði. Tókst það með ágætum og eignast þær folöld næsta vor með aðstoð staðgöngumæðra.


 Mirra frá Litla-Garði


Þær verða hins vegar sjálfar í sviðsljósinu og eiga að öllum vonum eftir að kynna okkar ræktun vel næsta árið. Móðir þeirra hún Væting fór hins vegar aftur undir Kiljan og nú er að sjá hvort við getum búið til aðra eins Eldborg. 


Nýjasta djásnið okkar hún Gullborg undan Væntingu og Gangster.


Í haust  komu Jenny Carlsson og Eydís Anna og aðstoðuðu Bigga við frumtamningarnar.

Biggi er nú ekki morgunlatur maður að eðlisfari, en þetta haustið var hann einstaklega glaður og spenntur að vakna og byrja daginn.

Ástæðan var býsna stór árgangur af Gangsters afkvæmum og sem ræktandi er auðvitað mest gaman að sjá hvernig ræktunin skilar sér áfram.

 

 Tenór 3. v. Gangsterssonur M. Sónata frá Litla-Hóli

Umsögn Bigga um tryppin!

Þetta er fyrsti árgangurinn undan Gangster sem taminn er undan sýndum mæðrum. Það hefur verið einstaklega gaman að frumtemja þennan hóp en þau þau eiga það sammerkt að vera sérstaklega geðgóð, næm og skynsöm. 

 

Öll fóru þau um á brokki til að byrja með en opnuðu mjög fljótt inn á töltið sem er takthreint með alvöru skrefi og sýna frábæra reiðhestshæfileika.

 

Gangster er búin að hafa það náðugt í ár enda kannski búin að kynna sig nóg í bili. Hann kom einungis fram á reiðhallarsýningu vesturlands Borgarfirði, en þar í nágrenninu á Arnbjörgum á Mýrum eyddi hann sumrinu ásamt fullt af glæsihryssum. Fyljunarprósentan var frábær, eða 99 %.

 

Næsta sumar eigum við von á 10 folöldum en þau eru undan Stegg frá Hrísdal, Gangster frá Árgerði, Kiljan frá Árgerði, Tristan frá Árgerði, Korg frá Ingólfshvoli og Arð frá Brautarholti. Fórum einnig með eina hryssu undir frá Kjark frá Skriðu en það tókst ekki í þetta skiptið.

 


 Gengin er til feðra sinna einn mikilvirkasti hrossaræktandi landsins Magni Kjartansson 85 ára að aldri. Hann hefur um langt skeið verið í fremstu röð hrossaræktanda heimsins en frá honum hafa komið ófá afrekshrossin ritar Óðinn Örn Jóhannsson í nýjasta Eiðfaxablaðinu.

 

já þann 30 nóvember kvaddi Magni okkar í Árgerði þessa jarðvist. Kveðjum við hann með þakklæti og með söknuð í hjarta. Magni var okkur ætíð traustur og hjálpsamur, skepnumaður með meiru og hugsaði vel um dýrin sín. Hann var fylginn sinni sérvisku varðandi hrossaræktina og skilaði það honum vel í gegnum tíðina. Hann lagði mikið upp úr afbrags geðslagi og mikilli getu á gangi.



 Gengin er mikill maður og hrossaræktandi og erum við þakklát að fá að taka við hans mikla og góða starfi. Kveðjum við góðann stjúpföður, tengdaföður, afa og langafa með kærri þökk fyrir samfylgdina og alla viskuna sem hann færði okkur.

Hvíld í friði elsku Magni okkar.

Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni
veki þig með sól að morgni. 


Megi nýja árið vera ykkur kæru lesendur gæfuríkt og gott.

Við í Litla-Garði förum full vonar og bjartsýni inn í nýja árið með trú um að það verði gæfusamt.



  • 1
Flettingar í dag: 1159
Gestir í dag: 153
Flettingar í gær: 1286
Gestir í gær: 168
Samtals flettingar: 787938
Samtals gestir: 52341
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 07:58:46