Færslur: 2016 Október

05.10.2016 17:51

Hrossasmölun


Sælir kæru lesendur.



Nýliðna helgi var hrossasmölun hjá okkur og erum við aðeins að prufa okkur áfram í ferðaþjónustu í smáum stíl. 




Höskuldur Aðalsteinsson vinur okkar kom hér með góðan hóp af frábæru fólki frá Austurríki og Þýskalandi. 



Hópurinn var hjá okkur frá hádegi á fimmtudegi til sunnudagskvölds og skemmst er frá því að segja að allt gekk eins og í lygasögu. 
Reiðhestarnir voru til fyrirmyndar og lögðum við áherslu á það að allir væru vel ríðandi á töltgengum og góðum hestum.  Að opna heimili sitt svona er virkilega gefandi og skemmtilegt og þakklæti fólksins var áþreifanlegt. 



Heimtum við öll okkar hross af fjalli, sum höfðu stækkað meira en önnur eins og gengur og gerist.
 
Vakti það athygli gestanna hvað stóðið var yfirvegað, en þau voru nú kannski ekki öll alveg svona spök eins og þessi veturgamla hryssa undan Kiljan frá Árgerði og Tíbrá frá Ási 1. 


Sindri Snær tyllti sér á eina veturgamla Kiljansdóttir :)


Þessi veturgamla hryssa vakti einnig mikla athygli fyrir hárprýði og fegurð. Hún heitir Gullborg og er undan Gangster frá Árgerði og Væntingu frá Ási 1, hún er sammæðra Eldborgu og Mirru.



Hafþór Magni kom að sunnan til að hjálpa mömmu sinni við eldhússtörfin, en eins og mörgum er kunnugt um er drengurinn snilldarkokkur.


Hafþór að "útskýra" matinn.

Auðvitað reyndum við eins og hægt var að hafa það íslenskt og hvað er íslenskara en það að mæta með sviðakjammann í réttirnar.


Hafþór að gefa smakk við misgóðar undirtektir :) 


Laugardagskvöldið var síðan tekið með stæl og að sjálfsögðu fóru allir á réttarball á Melgerðismelum með Geirmundi Valtýrssyni.




Skál og syngja :)


Sunnudagurinn var síðan tekin með rólegheitum, hrossin skoðuð í bak og fyrir.





Þriggja vetra tryppin eru komin aftur á hús, en þau voru einmitt frumtamin aðeins í sumar og er það greinilegt að þau hafa engu gleymt. Langt er komið með að járna þau og hafist er handa á sama stað og skilið var við þau. 

Tveir hestar eru á leið úr landi næstu helgi en það er stóðhesturinn Kiljan frá Árgerði og Fróðasonurinn Flygill frá Litla-Garði. 



Kiljan frá Árgerði


Flygill frá Litla-Garði

Óskum við nýjum eigendum til hamingju með hestana og óskum þeim velfarnaðar á nýjum slóðum. 

Þangað til næst, lifið heil. 

  • 1
Flettingar í dag: 443
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 4813
Gestir í gær: 149
Samtals flettingar: 1175674
Samtals gestir: 77522
Tölur uppfærðar: 11.10.2024 09:55:34