13.06.2015 08:38

Fjórar í fyrstu verðlaun.



Sælir kæru lesendur.




 

Nú er nýafstaðin kynbótasýning og fór Biggi með sjö hryssur í fullnaðardóm.

 Hann fór einnig með tvær fjögra vetra bráðefnilegar hryssur í byggingardóm.

Auðrún frá Kommu 4ra vetra Klakadóttir hlaut í byggingardóm 8,63 sem var jafnframt hæðsta sköpulagseinkunn mótsins. Ekki leiðinlegt fyrir Vilberg í Kommu að eiga slíkan grip og framhaldið spennandi.

 (Eigum því miður ekki mynd af þessari fegurðardís.)

 

Hin hryssan sem fór í byggingardóminn var hin 4ra vetra Ópera frá Litla-Garði í eigu Gumma og Helgu á Akureyri.


Ópera 4ra vetra undan Óm frá Kvistum og Melodíu frá Árgerði.


Hlaut hún 8,16 í byggingu og er það einnig ágætis veganesti fyrir komandi tíð.

 

Af hinum hryssunum sjö sem Biggi sýndi fóru fjórar í fyrstu verðlaun og fóru þar með í fyrsta skipti yfir hinn alræmda 8,0 múr. Það er ekki hægt annað en að vera sáttur með  þær niðurstöður og er ekki allt fullsótt enn í þeim efnum.

Tókum við nokkrar myndir á yfirlitssýningunni í dag og dembi ég þeim hér inn.



Hreyfing frá Þóreyjarnúpi, móálótt hryssa undan Sólon frá Hóli


Kvika frá Árgerði, bráðefnileg hryssa undan Blæ frá Hesti og Nös frá Árgerði,  þessi á eftir að gera enn betur en hún sýndi þessa sýninguna, við kvíðum engu í þeim efnum.

 

Gangster átti tvö afkvæmi í brautinni þetta vorið.

Fyrst er það Orka frá Hólum sem Lena okkar á.


 Þessi bráðefnilega hryssa fór aðeins inn í sig við vallaraðstæður í sýningunni og fékk ekki þá einkunn sem vonir stóðu til. En bráðefnileg er hún og það kemur síðar.

 

Eldbrá frá Litla-Garði í eigu Jóhönnu okkar skilaði hins vegar sínu vel og fór beint í fyrstu verðlaun í fyrsta kasti. Hæfileikar 8,28 Bygging 7,78 A,e 8,08


Kemur betri mynd síðar af þessari flottu hryssu. Myndatökumaðurinn var annars hugar og gleymdi sér aðeins :) 


Á Gangster þá þrjú dæmd afkvæmi þótt ungur sé og tvö þeirra eru komin í fyrstu verðlaun, lofar það góðu upp á framhaldið.

 

Augnakonfektið Aldís frá Krossum stóð fyrir sínu og hlaut í byggingu 7,90, í hæfileika 8,08 Ae 8,01.

 

Aldís á dillandi tölti og komin með fyrstu verðlaun.



Dögun frá Akureyri í eigu Erlings Guðmundssonar Akureyri smellti sér einnig yfir í fyrstu verðlaun. Hún hlaut í byggingu 7,88 , í hæfileika, 8,25, Ae. 8,11


 

Síðust en ekki síst er það drottningin okkar Eldborg frá Litla-Garði.


 Hún er undan Kiljan frá Árgerði og Væntingu frá Ási 1. Þessi fimm vetra skutla fékk í byggingu 8,06, hæfileika 8,44 A.e. 8,29 þar af 9 fyrir samræmi, vilja og geðslag, fegurð í reið, og 9,5 FYRIR HÆGT TÖLT :) 


9,5 hægt tölt og stórglæsileg er hún í brautinni.


Erum við afar stolt af Eldborginni okkar sem þeytti sína frumraun á vellinum. Verulega spennandi tímar framundan og stefnan sett á fjórðungsmót.


Látum þetta duga í bili.

Lifið heil 

Flettingar í dag: 293
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 686
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 793830
Samtals gestir: 52732
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 07:34:42