18.09.2014 09:55

Ræktun hesta og kinda skoðuð :)

Komið þið sæl :)



Í gær fengum við stórskemmtilega heimsókn. 

Hingað mættu 25 galvaskar konur frá Svíþjóð til að kynna sér okkar ræktun.  Var verulega gaman að geta sagt þeim frá okkar rótgrónu ræktun sem að Magni í Árgerði hóf upp úr 1960 og Dísa kona hans með honum  frá 1973. Við, Biggi og Herdís höfum síðan ásamt þeim haldið þeirri ræktun áfram og eru hrossin okkar ýmist kennd við Árgerði eða Litla-Garð.  Var fólkið forvitið að vita tengslin og svona fyrir þá sem ekki þekkja til er Herdís dóttir Dísu og fósturdóttir Magna.  Jarðirnar liggja saman og er einungis einn kílómeter á milli þeirra. Þannig að þetta er einstaklega þægilegt upp á dagleg samskipti. 

Sænsku konurnar eru hér að skoða ættartréð stóra  en að mestu má rekja alla okkar ræktun til Snældu frá Árgerði.  Ættbogi hennar er orðin afar stór og myndarlegur. Saga Snældu-Blesa vakti athygli en það má með sanni segja að brasið með hann er hann fótbrotnaði og var hjúkrað til heilsu svo hann gæti sinnt merum hafi aldeilis skilað sér þar sem að hann er á bak við okkar allra sterkustu ræktunarhross í dag eins  og Elvu frá Árgerði  Glæðu frá Árgerði og afkvæmi hennar þau Glettingu, Gloríu,Gangster, Glym, og nýjustu stjörnuna okkar hana Mirru Glymsdóttir frá Litla-Garði og áfam mætti lengi telja.


Einnig vakti athygli mynd af Heklu Pennadóttir frá Árgerði . Hún var hreinræktaður Árgerðingur og eru ekki allir sem vita að hún er einmitt móðir hinnar miklu gæðingamóðir Óskar frá Brún.  Afkvæmi Óskar eru ekki af verri endanum og má þar nefna fyrstu verðlaunahestana Óð, Ofsa, Óm, Hljóm, Óskahrafn og Höld frá Brún.

 

Virkilega gaman að fara svona oní saumana og sjá hvað framræktunin er gríðarleg frá gamla höfðingjanum honum Magna í Árgerði en stóðhesturinn Penni frá Árgerði er einmitt langafi þessara hesta.   Það er draumur hvers ræktanda þegar að ættboginn vex og dafnar með slíkum árangri :)


En að allt öðru, fyrstu göngur eru búnar og voru skil á fé góð, Þó eru  nokkrar skjátur enn eftir að skila sé heim. Vel var mætt í réttir hjá okkur og vorum við svo heppin að hafa litlu ömmu og afastelpuna í heimsókn;)


Viktoría Röfn, litla prinsessan og langamma "Dísa" í rettunum:) 


Sindri Snær með vini sínum og nágranna Óla í Hvassafelli. Og að sjálfsögðu átti hann þennan myndar hrút.

 Dísa Viktoría, Heiður Nanna  og Breki tóku sig vel út í réttum :) 



Andri ánægður með fenginn :)


Skildi þetta vera lífgimbur?


Einhver þarf að sjá um bókhaldið :) 


Það er ómetanlegt að hafa góða aðstoð í réttunum, Nanna systir Bigga og Andri tengdasonur hennar létu ekki sitt eftir liggja :)


Stundum er gott að hjálpast að.

Látum þetta duga í bili, gaman að sjá hveru margir eru duglegir að fylgjast með okkur hér á síðunni, það hvetur mann  til að setjast við tölvuna og skrifa fréttir: af daglegu amstri. 

Lifið heil!


Flettingar í dag: 319
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 686
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 793856
Samtals gestir: 52732
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 07:57:30