30.03.2011 23:26

Vor í lofti

Góðan og fallegan daginn góðir lesendur

Vek til að byrja með athygli ykkar á að lénið okkar er orðið http://www.litli-gardur.is :)

Fyrst og fremst frumsýnum við hér okkar eigið Lógó:

Hvernig líst ykkur á???

En mars er alveg að klárast og hinn alræmdi 1.apríl er á morgun. Mars hefur einkennst af frekar furðulegri veðráttu, upphaf mánaðarins var kuldi, vetur og endalaus skafrenningur sem endar alltaf með ófærð hér í dalnum djúpa og hér ber að líta myndir sem teknar voru í síðustu viku eftir vetrarhörku áðurgengra daga:


Myndarhaugur en ófært varð með öllu upp að stóðhestahúsi sökum stífrar sunnanáttar.

En svo hlýnaði og svo kom rigning og svo kom drulla og um síðustu helgi var allt að fara. Í dag er snjór hér og þar og drullan alveg að ná yfirhöndinni. En vor er í lofti og hlýtt úti og alveg dásamlegt að ríða út! Hrossin eru alveg með á nótunum líka og skynja vor og sumar í nánd.
Það fylgir alltaf hrossarag því að búa í sveit og í vetrarhörkunni geta girðingar snjóað í kaf eða gefið sig. Og hrossin eiga það til að fara á flakk eins og við lentum í í mánuðinum. Síðasta laugardag var svo notað góða veðrið í að færa þau aftur niður í Miðgerði þar sem folaldshryssur eru í einu hólfi og geldhross í öðru:


Byrjað á að reka heim og skilja að. Komust að þeirri leiðindaniðurstöðu að tvær af efnilegustu hryssunum á þriðja vetur er að öllum líkindum fylfullar. Báðar eru þær undan 1.verðlauna foreldrum og miklar væntingar bundnar við þær. Það eru ekki alltaf jólin!


Aðeins stopp í gerðinu heima


Alveg að koma á leiðarenda

Það gleymdist alveg að seigja frá því að nýlega festi húsfrúin kaup á nýjum frúarbíl á bænum. Auðvitað er þetta ekki bara frúarbíll en samt er hann það eiginlega :) 
Gullfallegur Hyundai Santa Fe 


Fallegur er hann

En er komið að öðru BLAST FROM THE PAST

Magni er nú á 81.aldursári og bara nokkuð sprækur. Sér ennþá alveg um sitt bú og er með nokkur hross á járnum. Hefur með sér stelpu í nokkra tíma á dag og er nokkuð riðið út. Gamli trimmar tvær hryssur sjálfur, fær smá aðstoð á og af baki og svo bara laggó. Hestamannahugurinn deyr aldrei og þjálfar hann þær eftir bestu getu, önnur svona klármegin og hin meira alhliðamegin og svona aðeins þungar á sér en það sem það er nú gaman að sjá hvernig hann lifnar við og ljómar á baki. Það er nú ekki nema 9 ár síðan hann sýndi Snældu sína sjálfur í 1.v og kom henni inn á Landsmót í 4.vetra flokki, 72 ára!


Magni og Snælda á Vindheimamelum 2002 á LM

Hann gerði um betur og sýndi hana aftur 6.v og kom henni aftur inn á Landsmót! Svona menn eru alveg einstakir. Hestamenn alveg inn að beini og út aftur að skinni.

Snælda frá Árgerði er skírð í höfuðið á stofnhryssunni Snældu fæddri 1968. Hún var einstakur gæðingur á sínum tíma og má rekja ættir allra Árgerðishrossa í dag aftur til hennar tel ég öruggt að fullyrða. Hún fæddist upp á dag 30 árum síðar en formóðir sín og undan Bliku dóttur Snældu. Örlítið dekkri jarpur litur en að öðru leyti nauðalík ömmu sinni.
Snælda sinnir hlutverki stóðhryssu í dag, tvö komin á tamningaraldur og virðist hún ekki ætla að svíkja nafn sem ættmóðir. Undir henni gengur brún hryssa undan Þóroddi og er hún fylfull við Óm frá Kvistum.


Hér er Snælda með dóttur sinni Senu (Tindsdóttir) sumarið 2009

Flettingar í dag: 542
Gestir í dag: 72
Flettingar í gær: 1525
Gestir í gær: 86
Samtals flettingar: 2677322
Samtals gestir: 306066
Tölur uppfærðar: 15.4.2021 16:27:58