23.03.2011 00:39

Snjór snjór og aðeins meiri vindur!


Gangster í léttri sveiflu í mars loksins þegar lægir aðeins

Góðan daginn kærir lesendur.

Við erum við það að snjóa í kaf og fjúka í burtu til skiptis hér í Djúpadalnum. Það er ófært nánast upp á hvern dag hérna bæði fyrir tæki og skepnur. En það kemur birta inn á milli og það eru allir svo kátir með færi og veður að það er ekki annað hægt en að festa það á filmu.

Okkur vantaði frábæra mynd fyrir stóðhestablaðið af honum Gangster okkar og fannst okkur engin mynd til sem sýndi hann í réttu ljósi. Því var farið í dag og gert ein tilraun til og tókst framar vonum. Hesturinn batnar og batnar og hrein unun er að horfa á hann hreyfa sig, slíkt er skrefið og fótaburðurinn.

Nokkur sýnishorn og smellið á síðustu myndina til að fara inn í albúmið:







Höfum við eiginlega ákveðið að hafa þennan hest hér heima í sumar og halda öllum okkar hryssum undir hann sem eru ekki of skyldar því svona grip kemst maður ekki oft í tæri við.

Af öðrum fréttum gengur tamningarstöðin glimrandi fyrir utan veðurþunglyndið sem herjar stanslaust á okkur. En guði sé lof fyrir inniaðstöðuna og lambhúshetturnar og ég tala nú ekki um kuldagallann og ullarsokkana :)

Í síðustu viku var verknámið hálfnað hjá Önnu Sonju og hún kláraði frumtamningarkaflann. Því var frestað einu sinni sökum veðurs og það var ótrúlegt en það lægði rétt á meðan hún tók prófið og hvessti svo aftur. En hér eru nokkrar myndir úr prófinu hennar:


Prófdómararnir Sölvi Sig og Tóti Eymunds taka út fyrsta tryppið, Perlu frá Tungu undan Stormi frá Efri-Rauðalæk í eigu Jóseps á Möðruvöllum


Anna kampakát með tryppi nr. 2 sem heitir Dalrós frá Litla-Garði í eigu Bigga og Herdísar undan Ódeseif frá Möðrufelli og Sunnu frá Árgerði


Anna valdi þrjú tryppi í prófið og prófuðu dómararnir þau öll bæði úti og inni. Hér situr Sölvi Dalrósu og lætur hana víkja að aftan.

HÉR má sjá aðeins fleiri myndir úr prófinu!

Þriðja tryppið sem hún fór með í prófið var Þoka frá Leysingjastöðum undan Stíganda Leysingjastöðum í eigu Hreins á Leysingjastöðum. Þau sem voru ekki notuð í prófið voru Sólvindur frá Kálfagerði undan Ódeseif frá Möðrufelli og Gloría frá Kálfsskinni undan Spæni frá Hafrafellstungu.

En við kveðjum að sinni úr snjóþungadalnum djúpa með smá blast from the past þó ekki gamalt sé, Sindri Snær þarsíðasta sumar knúsar Senu frá Árgerði, vonarstjörnuna undan Snældu frá Árgerði og Tind frá Varmalæk. Gott að sjá grænt og sumar svona í hyllingum :)

.

Flettingar í dag: 558
Gestir í dag: 58
Flettingar í gær: 956
Gestir í gær: 133
Samtals flettingar: 815003
Samtals gestir: 53839
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 11:52:25