Færslur: 2015 Júní

20.06.2015 15:02

Gangster í Borgarfjörðinn

Gangster frá Árgerði væntanlegur í Borgarfjörðinn!



Hin fasmikli og flugrúmi gæðingur  IS-2006.1.65-663 Gangster frá Árgerði væntanlegur í Borgarfjörðinn!

Tekið verður á móti hryssum undir Gangster frá Árgerði laugardaginn 27. júní, eftir hádegi að Arnbjörgum Mýrum Borgarfirði.
FULLBÓKAÐ er undir hann fyrra gangmál, enn er hægt að panta pláss á seinna gangmálið. Reiknað er með að sónað verði frá honum seinnipartinn í júlí og fleiri hryssum bætt við.


Gangster er einstakur gæðingur sem hefur náð frábærum árangri bæði í A-flokki (8,91 í milliriðill LM 2014) í B-flokki (8,55 í forkeppni og 8,69 í úrslitum) og kynbótadómi þar sem hann er með 8,63 í aðaleinkunn og 8,94 fyrir hæfileika.
Jafnvígur, geðgóður, rúmur, faxprúður og skrefmikill klárhestur með flugskeiði.
Gangster vakti mikla athygli á landsmótinu 2014 fyrir sitt frjálsa fas og miklu úrgeislun. Þar steig hann sínu fyrstu spor í gæðingakeppni A flokks ,var fimmti hæsti eftir forkeppni, annar eftir milliriðil og endaði í sjötta sæti í sterkasta A flokki sögunnar.
Gangster er undan Heiðursverðlaunahestinum Hágangi frá Narfastöðum og er hæðst dæmda afkvæmi hans. Hann er undan Snældu-Blesadótturinni Glæðu frá Árgerði, en hún á 4 önnur sýnd afkvæmi, öll í fyrstu verðlaunum.
Helsti kostur Gangsters frá Árgerði er hve jafnvígur hann er á öllum gangtegundum, með frábært brokk og fet eins gæðingum í dag sæmir. Gangster er glæsilegur í framgöngu, fangreistur og faxprúður. Á gangi er hann skrefstór, flugrúmur og öflugur.

Gangster er langræktaður hestur úr ræktun sem byggir á gömlum grunni og hefur um árabil verið þekkt fyrir gott geðslag og eðlisgæði.


Þrátt fyrir ungan aldur á Gangster nú þegar tvö fyrstu verðlauna afkvæmi.
Verð á folatoll. 145,000 Innifalið folatollur + vsk + girðingargjald og 1 sónarskoðun.

Pantanir og upplýsingar gefur Stefán Birgir í s 896-1249 & Arnbjörg Mýrum Borgarfirði í síma 898 8134 Gunnar & 771 6661 Guðni


LM 2014




13.06.2015 08:38

Fjórar í fyrstu verðlaun.



Sælir kæru lesendur.




 

Nú er nýafstaðin kynbótasýning og fór Biggi með sjö hryssur í fullnaðardóm.

 Hann fór einnig með tvær fjögra vetra bráðefnilegar hryssur í byggingardóm.

Auðrún frá Kommu 4ra vetra Klakadóttir hlaut í byggingardóm 8,63 sem var jafnframt hæðsta sköpulagseinkunn mótsins. Ekki leiðinlegt fyrir Vilberg í Kommu að eiga slíkan grip og framhaldið spennandi.

 (Eigum því miður ekki mynd af þessari fegurðardís.)

 

Hin hryssan sem fór í byggingardóminn var hin 4ra vetra Ópera frá Litla-Garði í eigu Gumma og Helgu á Akureyri.


Ópera 4ra vetra undan Óm frá Kvistum og Melodíu frá Árgerði.


Hlaut hún 8,16 í byggingu og er það einnig ágætis veganesti fyrir komandi tíð.

 

Af hinum hryssunum sjö sem Biggi sýndi fóru fjórar í fyrstu verðlaun og fóru þar með í fyrsta skipti yfir hinn alræmda 8,0 múr. Það er ekki hægt annað en að vera sáttur með  þær niðurstöður og er ekki allt fullsótt enn í þeim efnum.

Tókum við nokkrar myndir á yfirlitssýningunni í dag og dembi ég þeim hér inn.



Hreyfing frá Þóreyjarnúpi, móálótt hryssa undan Sólon frá Hóli


Kvika frá Árgerði, bráðefnileg hryssa undan Blæ frá Hesti og Nös frá Árgerði,  þessi á eftir að gera enn betur en hún sýndi þessa sýninguna, við kvíðum engu í þeim efnum.

 

Gangster átti tvö afkvæmi í brautinni þetta vorið.

Fyrst er það Orka frá Hólum sem Lena okkar á.


 Þessi bráðefnilega hryssa fór aðeins inn í sig við vallaraðstæður í sýningunni og fékk ekki þá einkunn sem vonir stóðu til. En bráðefnileg er hún og það kemur síðar.

 

Eldbrá frá Litla-Garði í eigu Jóhönnu okkar skilaði hins vegar sínu vel og fór beint í fyrstu verðlaun í fyrsta kasti. Hæfileikar 8,28 Bygging 7,78 A,e 8,08


Kemur betri mynd síðar af þessari flottu hryssu. Myndatökumaðurinn var annars hugar og gleymdi sér aðeins :) 


Á Gangster þá þrjú dæmd afkvæmi þótt ungur sé og tvö þeirra eru komin í fyrstu verðlaun, lofar það góðu upp á framhaldið.

 

Augnakonfektið Aldís frá Krossum stóð fyrir sínu og hlaut í byggingu 7,90, í hæfileika 8,08 Ae 8,01.

 

Aldís á dillandi tölti og komin með fyrstu verðlaun.



Dögun frá Akureyri í eigu Erlings Guðmundssonar Akureyri smellti sér einnig yfir í fyrstu verðlaun. Hún hlaut í byggingu 7,88 , í hæfileika, 8,25, Ae. 8,11


 

Síðust en ekki síst er það drottningin okkar Eldborg frá Litla-Garði.


 Hún er undan Kiljan frá Árgerði og Væntingu frá Ási 1. Þessi fimm vetra skutla fékk í byggingu 8,06, hæfileika 8,44 A.e. 8,29 þar af 9 fyrir samræmi, vilja og geðslag, fegurð í reið, og 9,5 FYRIR HÆGT TÖLT :) 


9,5 hægt tölt og stórglæsileg er hún í brautinni.


Erum við afar stolt af Eldborginni okkar sem þeytti sína frumraun á vellinum. Verulega spennandi tímar framundan og stefnan sett á fjórðungsmót.


Látum þetta duga í bili.

Lifið heil 

  • 1
Flettingar í dag: 629
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 390
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 793480
Samtals gestir: 52720
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 21:38:24